Jafnréttis- og jafnlaunastefna Lýsis
Tilgangur og gildissvið
Jafnlaunakerfi Lýsis byggir á staðli ÍST85:2012 á grundvelli 7. gr. laga nr. 150/2020 um jafnlaunavottun. Tilgangur og markmið jafnréttis- og jafnlaunastefnu Lýsis er að stuðla að jafnrétti allra kynja í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt þeirra og að fylgja þeirri meginreglu að greidd séu sambærileg laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og að kjör séu ætíð ákveðin út frá sömu forsendum, þannig að enginn kyndbundinn launamunur sé til staðar hjá Lýsi. Skjalið er órjúfanlegur hluti af mannauðsstefnu Lýsis. Stefnan nær til alls starfsfólks Lýsis.
Stefna
Lýsi leggur áherslu á jafnrétti kynjanna og að nýta til jafns styrkleika alls starfsfólks þannig að hæfileikar og færni alls mannauðs njóti sín sem best og er það skjalfest með stefnu þessari. Stefna Lýsis er að vera vinnustaður þar sem öll eru metin að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu og að öll hafi jöfn tækifæri til þess að axla ábyrgð og sinna verkefnum óháð kyni. Við launaákvörðun er tekið mið af inntaki starfa, álagi, hæfi og þróun á vinnumarkaði. Lýsi vill ráða og halda hæfu starfsfólki sem notar uppbyggileg samskipti á vinnustaðnum, þar sem jöfn laun og jafnrétti eru lögð til grundvallar.
Lýsi fylgir lögum, reglum og samningum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma.
Meginmarkmið í jafnréttismálum eru:
að fyrirtækið uppfylli kröfur í formi laga, reglna og reglugerða um jafnréttismál,
að tekið sé mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og stærri ákvarðanatöku,
að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf,
að starfskjör allra kynja séu jöfn fyrir sömu eða jafnverðmæt störf,
að jafnréttis sé gætt við ráðningar í störf og tilfærslur í starfi,
að vera vinnustaður þar sem hvert og eitt er metið og virt að verðleikum óháð kyni,
að vera vinnustaður þar sem öll kyn eiga jafna möguleika bæði til vinnuaðstöðu og starfs en líka til þróunar í starfi,
að vera vinnustaður þar sem öll kyn njóta sömu tækifæra til starfsþjálfunar og fræðslu,
að vera vinnustaður sem gerir starfsfólki kleift að samræma vinnu og einkalíf,
og að vera vinnustaður þar sem ekkert ofbeldi er liðið og vinna gegn slíku innan fyrirtækisins. Hér undir fellur meðal annars kynbundið/kynferðislegt ofbeldi/áreitni eða einelti.
Innleiðing og rýni
Framkvæmdastjóri fjármáladeildar er eigandi jafnlaunakerfisins. Starfsmannastjóri ber ábyrgð á rekstri jafnlaunakerfisins, þ.e. skjalfestingu, innleiðingu, umbótum og framkvæmd ásamt því að sjá til þess að stefnunni og jafnlaunakerfinu í heild sé viðhaldið, það rýnt og endurskoðað. Þá ber framkvæmdastjórn ábyrgð á að rýni á árangri jafnlaunakerfisins sé framkvæmd árlega og að brugðist sé við ef þarf. Starfsmannastjóri ber ábyrgð á að öll gögn sem rýna á liggi fyrir þegar kemur að árlegri rýni.
Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á að gætt sé að jafnrétti kynjanna hjá Lýsi. Stjórnendur Lýsis skuldbinda sig til að framfylgja og bera sameiginlega ábyrgð á að viðhalda stöðugum umbótum á öllum þáttum jafnlaunakerfisins.
Til að ná fram markmiðum jafnréttis- og jafnlaunastefnu Lýsis og tryggja þannig starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í lögum vinnur Lýsi eftir jafnréttisáætlun sem er endurskoðuð á þriggja ára fresti. Jafnframt er ferli eineltis- og áreitnismála fylgt ef uppi er grunur um einelti, áreitni eða ofbeldi.
Tungumál