Saga Lýsis

Ævintýrið hófst með eftirspurn eftir íslensku þorskalýsi sem náttúrulegri uppsprettu af A- og D-vítamíni. Tveir metnaðafullir bræður, Tryggvi og Þórður Ólafssynir, hófu þá söfnun og vinnslu á þorskalifur í Reykjavík.

Saman stofnuðu þeir Lýsi hf 10. janúar 1938.

Story of Lýsi 01

1938-1954

Með aukinni þekkingu á heilsufarslegum áhrifum þorskalýsis og vítamíninnihaldi þess jókst eftirspurnin enn frekar. Lýsi varð fljótlega stærsti framleiðandi og útflytjandi þorskalýsis á Íslandi og er það enn í dag.

Olafssons

1955-1977

Fram að þessu hafði Lýsi eingöngu flutt út magnvöru en upp úr 1955 hóf fyrirtækið framleiðslu á kaldhreinsuðu þorskalýsi í neytendapakkningum. Alla tíð síðan hafa neytendavörur gegnt mikilvægu hlutverki fyrir Lýsi með innlendan markað sem fyrirmynd.

Rannsóknastofu var komið á laggirnar um 1960 og reglubundnar rannsóknir á þorskalýsi hófust.

1978-1997

Vísindamenn komust að því að neysla lýsis dregur úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta hafði mikil áhrif á almenning og vinsældir þorskalýsis jukust enn á ný. Lýsi lagði á þessum árum síaukna áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf með þeim árangri að fyrirtækið er í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki hvað varðar framleiðslu á ómega-3 ríkum lýsisafurðum.

Árið 1992 varð Lýsi fyrsta ISO vottaða fyrirtækið á Íslandi.

1999-2010

Nýtt tímabil í sögu Lýsis

Katrín Pétursdóttir, barnabarn Tryggva stofnanda Lýsis, varð eigandi með farsælum samruna hausaþurrkunar hennar í Þorlákshöfn og Lýsis. Var þetta upphaf nýs tímabils í sögu Lýsis þar sem sala jókst hratt og rannsóknir og þróun urðu sterkari en nokkru sinni fyrr.

lysi-factory

Ný verksmiðja Lýsis var vígð í Reykjavík 2005 en hún er sérútbúin fullkomnustu tækni á öllum stigum vinnslunnar.

Lýsi hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2007 og hófst framleiðsla fyrirtækisins á ómega-3 þykkni með nýrri framleiðslutækni árið 2008.    

2010-dagsins í dag

Árið 2012 lauk umfangsmikilli stækkun á verksmiðju Lýsis með tvöföldun framleiðslugetunnar í 13.000 tonn. Með enn betri gæðum og ferlum hefur Lýsi getað boðið upp á lýsisafurðir sem virk lyfjaefni síðan 2014.

Lýsi keypti niðursuðuverksmiðjuna Akraborg árið 2015 og ný hausaþurrkunarverksmiðja var tekin í notkun árið 2019. Hráefnisframleiðandinn IceFish bættist svo í Lýsisfjölskylduna árið 2022.

Tankasalur1

Með yfir 85 ára reynslu er Lýsi þekkt um allan heim fyrir hágæða vörur, sérþekkingu sína á framleiðslu lýsis og framúrskarandi þjónustu.